*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 13. janúar 2017 11:58

Jólaverslunin hófst fyrr

Söluhvetjandi viðburðir verslana eins og Black Friday virðast hafa ýtt jólaversluninni fyrr af stað en áður.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Líklegt er að Black Friday og aðrir söluhvetjandi viðburðir verslana í nóvember hafi haft þau áhrif að jólaverslunin fór fyrr af stað áður hefur sést. 

Þetta kemur fram í umfjöllun Rannsóknarseturs verslunarinnar um jólaverslunina fyrir nýliðin jól, en þar segir að stærri hluti hennar hafi farið fram í nóvember en áður hafi sést.

Þó velta í dagvöruverslunum hafi aukist um 3,6% í desember miðað við sama mánuð árið áður, ef miðað er við breytilegt verðlag, þá varð þónokkur innbyrðis breyting á milli tegunda verslunar. Þetta gerist á sama tíma og verð á dagvöru lækkaði um 0,7% á tímabilinu.

Áfengissala jókst

Þannig jóst sala áfengis um 17,9% milli ára, en verð á áfengi var 0,3% hærra en árið áður.

Fata- og skóverslun dróst hins vegar saman milli áranna, fataverslunin um 1,7% á sama tíma og fataverð var 5,9% lægra en ári fyrr. Velta skóverslunar minnkaði um 2,9% þó verðið hafi lækkað um 2,2% frá árinu áður.

Mikil aukning var svo í verslun á húsgögnum, en þar jókst veltan um 31,9%, velta stórra raftækja jókst um 12,6% og aukningin í byggingavöruverslunum nam 21,8%. 

Auknar pakkasendingar

Mikil aukning var jafnframt í fjölda þeirra pakkasendinga sem Íslandspóstur sá um dreifingu á frá útlöndum í desember, eða um 64% frá sama mánuði ári fyrr. Má ætla að rekja megi aukninguna til netverslunar, en mesta aukningin var frá Kína og öðrum Asíulöndum.

Auk þess var mikil aukning í ferðir til útlanda síðustu tvo mánuði ársins sem rannsóknarsetrið telur jafnframt vera merki um aukin jólainnkaup Íslendinga erlendis.

Á móti þessari aukningu var mikill vöxtur í verslun erlendra ferðamanna hér á landi, en í desember greiddu erlendir ferðamenn fyrir liðlega tvo milljarða í íslenskum verslunum. Það er aukning um fjórðung frá desember en stærsti hluti hennar fór til kaupa á dagvöru, eða 467 milljónir króna.