Aukin jólaverslun frá fyrra ári Velta í dagvöruverslun jókst um 1,1% á föstu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í desember um 3,4% frá sama mánuði í fyrra.

Þetta kemur fram í smásöluvísitölu Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) sem birt er á vef setursins. Þar kemur fram að jólaverslun var almennt meiri fyrir síðustu jól en árið áður.

„Þó heimilin hafi varið um 6% meira til matarinnkaupa í desember var raunaukningin um 1,1% á milli ára vegna verðhækkana,“ segir í skýrslu RSV.

„Rétt er samt að vekja athygli á vikudagamun á milli ára sem hafði þau áhrif að raunaukningin var 3,4% ef leiðrétt er fyrir þessum mun. Allt árið 2012 varð 1,0% raunaukning í veltu dagvöruverslunar miðað við árið þar á undan. Síðastliðin þrjú ár, frá ársbyrjun 2010 til ársloka 2012 hefur velta dagvöruverslana verið að þokast hægt uppávið að raunvirði.“

Mest var aukningin í sölu á skóm í desember. Í mánuðinum jókst skósala um 9,2% að raunvirði miðað við sama mánuð árið áður en verð á skóm hækkaði nánast ekkert á milli ára. Sala á fötum dróst hins vegar saman í desember að raunvirði um 1,4%. Allt árið 2012 var raunaukning í sölu á skóm um 3,8% en samdráttur í fatasölu um 2,7%.

Þá kemur fram að sala á húsgögnum hefur ekki enn náð sér á strik eftir efnahagshrunið. Lítil breyting hefur átt sér stað í sölu húsgagna undanfarin fjögur ár. Húsgagnasala var 58,3% minni að raunvirði í desember síðastliðnum miðað við desember 2007. Líklega er samt ólík endurnýjunarþörf eftir tegundum húsgagna. Þannig varð 7,5% aukning í sölu hjá sérverslunum með rúm á meðan heildarsamdráttur var í sölu húsgagna um 4,0 á milli árana 2011 og 2012.

Þá kemur loks fram að greiðslukortavelta heimilanna í desember var 8,9% meiri í desember síðastliðnum en í sama mánuði árið áður. Athygli vekur að kortavelta útlendinga hér á landi í desember jókst um 41% frá desember fyrir ári síðan. Þannig greiddu útlendingar 3,8 milljarða króna í desember hér á landi með greiðslukortum sínum, samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands. Þetta er í samræmi við mikla aukningu á fjölda ferðamann til landsins. Í desember síðastliðnum fjölgaði erlendum ferðamönnum um 33,7% frá desember 2011.

Sjá nánar á vef RSV .