Rannsóknarsetur verslunarinnar spáir því að jólaverslun í ár verði svipuð að raunvirði og hún var fyrir síðustu jól. Spáin byggir á þróun veltu í smásöluverslun þar sem af er ári miðað við árið á undan.

Í skýrslu rannsóknarsetursins um jólaverslun 2010 segir að á fyrri hluta áratugarins hafi hvert metið verið slegið í aukinni jólaverslun. Þessi þróun snérist við árið 2008 þegar verslun fyrir jólin dróst saman um 18,3% að raunvirði. Samdrátturinn hélt áfram í fyrra og minnkaði sala um 4% frá fyrra ári.

Spáð er að helst verði vöxtur í sölu raftækja en þar hefur verslun aukist hvað mest á þessu ári. „Verð á raftækjum hefur farið lækkandi og meira er um að fólk fjárfesti í stærri og dýrari tækjum en fyrir ári síðan. Þá nýtur íslensk verslun góðs af því að dregið hefur úr því að landsmenn fari í verslunarferðir erlendis eins og algengt var þegar gengi krónunnar var sterkara en nú.“

Ætla má að verslun vegna jólanna, það er velta umfram meðaltal annarra mánaða ársins, verði tæplega 12,5 milljarðar króna í ár. Samkvæmt því má ætla að hver Íslendingur verji að meðaltali 39.500 krónum til innkaupa tengdum jólahaldi, segir í skýrslunni.

Skýrsla Rannsóknarseturs verslunarinnar.