Jólaverslunin hefur gengið framar vonum að sögn Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að verslunin sé þó minni en um síðustu jól og samdrátturinn geti numið allt að 20%. Rétt er að geta þess að fyrir síðustu jól var alger metverslun þannig að samanburður við jólin í fyrra er kannski ekki raunhæfur. Margir verslunareigendur telja að verslunin nú sé góð í samanburði við verslunina fyrir jólin 2006.

Andrés segir að greinilegt sé að fáir sem engir Íslendingar hafi farið til útlanda til að gera innkaup fyrir jólin. Það vegi þungt í því að verslunin innanlands hefur gengið betur en svartsýnar spár gerðu ráð fyrir.

Hefðbundin gjafavara, svo sem úr og skartgripir, selst ágætlega að sögn Andrésar. Þá hefur fatnaður selst sæmilega en þar er samt búist við um 10-15% samdrætti. Í flokki smárra og stórra rafmagnstækja má gera ráð fyrir að salan dragist saman um 15-20%. Hins vegar hefur bókaverslunin gengið vel og tekist hefur að halda verði bóka í svipuðu horfi og í fyrra og þakkar Andrés það mikilli samkeppni á markaðinum.

Mikil breyting hefur átt sér stað á greiðslumáta í jólaversluninni. Mun meira er um það að fólk borgar með reiðufé eða með debetkortum en kreditkortin hafa látið undan síga.