Aðsókn að Þjóðleikhúsinu hefur ekki aukist í takt við fjölgun uppfærðra leikverka og sýninga. Kostnaður hefur vaxið hlutfallslega meira en tekjur. Uppsafnaður halli nam um 70 milljónum króna í árslok 2007.

Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar þar sem staðhæft er að Þjóðleikhúsið sinni allvel lögboðnum verkefnum sínum en fjárhagsstaðan sé erfið. "Brýnt er að leikhúsið sníði sér stakk eftir vexti og leiti leiða til að auka tekjur sínar og minnka kostnað," segir Ríkisendurskoðun. "Þá þarf að bæta áætlanagerð og árangursstjórnun þess." "Ríkisendurskoðun telur brýnt að Þjóðleikhúsið haldi rekstri sínum innan ramma fjárlaga. Mikilvægt er að ná betra jafnvægi milli tekna og gjalda og greiða niður skuldir. Í þessu skyni þarf leikhúsið að leita leiða til að auka aðsókn að leikverkum sínum og þar með tekjur. Þá er brýnt að verkbókhald og áætlanagerð verði bætt sem og daglegt eftirlit með framfylgd áætlana," en ýmsar aðrar ábendingar eru settar fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem lesa má í heild sinni á heimasíðu stofnunarinnar .