„Þjóðlendumálið er einn angi græðgisvæðingar sem á endanum leiddi mikla ógæfu yfir þjóðina. Ríkisvaldið réðst að sjálfum eignarréttinum, einum af hornsteinum samfélagsins með öfgafullum og siðlausum kröfum án þess að spyrja um afleiðingar og herkostnað. Landeigendur eru margir hverjir í sárum eftir þá viðureign,“ sagði Örn Bergsson, formaður Landssamtaka landeigenda, á aðalfundi samtakanna í Reykjavík sl. föstudaginn.

Landeigendur gagnrýna Óbyggðanefnd fyrir hönd stjórnvalda fyrir að úrskurða lögmönnum landeigenda mun lægri málsvarnarlaun en sem svarar raunverulegum kostnaði við málareksturinn, jafnvel innan við helming lögfræðikostnaðarins.

Í máli lögmannanna Friðbjörn F. Garðarssonar og Ólafs Björnssonar á fundinum kom fram að lögð væri óeðlilega þung sönnunarbyrði á landeigendur í málarekstri vegna eignarréttar síns gagnvart ríkinu. Þar af leiðandi ríkti nú ákveðin réttaróvissa sem einungis yrði eytt með lagabreytingu.

Þegar er búið að taka um það bil helming Íslands til umfjöllunar samkvæmt þjóðlendulögunum og kveðnir hafa verið upp 27 dómar í Hæstarétti varðandi þjóðlendur.

Örn minntist þess að núna er liðinn réttur áratugur frá því fyrsta kröfugerð ríkisins í þjóðlendumálum var lögð fram, 1. mars 1999 í Árnessýslu. Landssamtök landeigenda voru stofnuð í ársbyrjun 2007 til að standa vörð um hagsmuni landeigenda í þjóðlendumálinu.

Á aðalfundinum núna var samþykkt að breyta lögum samtakanna til að auka verulega umboð þeirra til hagsmunagæslu landeigenda. Það verði m.a. gagnvart stórfyrirtækjum, opinberum fyrirtækjum og stofnunum og aðilum á þeirra vegum.