Yfir 100 jólasveinar eru samankomnir í Kaupmannahöfn á árlegu jólasveinaþingi þar í landi sem hófst á mánudaginn. Jólasveinarnir koma víðs vegar að úr heiminum og taka þátt í þessum þriggja daga viðburði í dönsku höfuðborginni.

Meðal þess sem fer fram á jólasveinaþinginu er skrúðganga, jólasveina-hindranahlaup og sýningar í Bakken skemmtigarðinum. Þá geta jólasveinarnir, sem eru alls 125 frá 15 löndum, rætt ýmis fagleg málefni.

„Ég held að við þurfum aðallega að ræða það að jólasveinninn fái sér aðeins minna af smákökum. Stromparnir eru aðeins minni núna og 15-20 kökur er aðeins of mikið. Kannski sleppur 12,“ sagði einn jólasveinanna, kominn alla leið frá Bandaríkjunum.

Jólasveinaþingið var fyrst haldið árið 1957 og hefur vakið mikla lukku.