Kína, landið sem framleiðir um 80% allra jólaskreytinga sem seldar eru í Bandaríkjunum og víðar um heim, hefur í auknum mæli sett skorður við fögnuði á jólunum, sem stjórnvöld hafa kallað útlenda hátíð.

South China Morning Post segir þó frá því að nýleg ræða skólastjórnanda í Sixian sýslu þar sem hann tengdi jólin við niðurlægingu Kína af hendi vestrænna ríkja á keisaratímanum hefur þó verið tekin niður af opinberri vefsíðu sem hafði fagnað henni, eftir gagnrýni.

Í kjölfar ræðu skólastjórnandans kom svo ræða sem sagði nemendum að fagna frekar fæðingardegi Maó formanns, stofnanda kínverska kommúnistaflokksins sem ræður ríkjum á meginlandi Kína, en hann var fæddur 26. desember 1893.

New York Times fjallar um handtöku fyrrum mannréttindalögfræðingsins, og prófessorsins sem hætti kennslu til að gerast prestur, Wang Yi í byrjun mánaðarins, sem virðist tengjast aukinni áherslu Xi leiðtoga kommúnistaflokksins til að ná stjórn á óopinberum heimakirkjum í landinu.

Víða um land voru kirkjur stöðvaðar í að halda jólamessur, bæði með því að þurfa að sækja leyfa til margvíslegra stjórnsýslueininga sem og með lögregluaðgerðum , en víða virtust þó opinberar kirkjur sem lúta stjórn yfirvalda í landinu fá að halda sínar jólamessur.

Yi, sem er einn af þekktari prestum landsins var einn af nokkrum tugum til yfir 100 presta sem handteknir voru í aðgerðunum sem fólu í sér að kirkjunni hans var lokað og gerð að skrifstofu fyrir stjórnvöld á svæðinu.

Í fyrirfram skrifaðri yfirlýsingu sem birt var 48 stundum eftir hvarf hans lýsir hann yfir því að hann hafi ekki áhuga á að steypa stjórnvöldum en hann muni óhlýðnast meðan óréttlátar ofsóknir gegn kristnu fólki og öðrum trúuðum viðgangist í landinu. Jafnvel hafa birst frásagnir af því að lögreglustöðvar verði að uppfylla lágmarkskvóta um handtökur á kristnu fólki.

Víða um land hefur verið aukinn hefð fyrir því að setja upp jólaskraut bæði á almannafæri og í verslunum en nú virðast stjórnvöld vera að láta taka þau niður þó mishart virðist vera gengið fram í því eftir landshlutum. Þannig virðist sem jólaskraut fái að hanga uppi í stærstu borgunum og þar sem líkur eru á erlendum ferðamönnum en Newsweek segir frá því að í sumum borgum hafi allt verið tekið niður, að sögn til að borgin geti unnið til verðlauna sem fyrirmyndarborgir.

Xi Jinping hefur að sögn New York Times áhyggjur af því að kirkjurnar geti ógnað valdi kommúnistaflokksins , en undir hans stjórn hefur sala á biblíum á netinu verið bönnuð, kirkjum lokað og sumar rifnar auk þess sem krossar hafa verið víða teknir niður, auk þess sem eftirlitsmyndavélar hafa verið settar upp í kirkjum.

Er þetta til viðbótar við handtökur í þúsundatali á múslimum í Xinjiang héraði í norðvestur Kína.