Fyrstu ákærur frá embætti sérstaks saksóknara á hendur þeim sem urðu til þess að íslenska bankakerfið féll saman verða að fara að líta dagsins ljós, sagði Eva Joly í viðtali við Egil Helgason í Silfrinu í dag.

Eva Joly, fyrrverandi ráðgjafi sérstaks saksóknara, segir það hafa tekið langan tíma að rannsaka mál sem tengjast bankahruninu og þeim efnahagslegu hamförum sem riðu yfir Ísland í október árið 2008 og því sem gerðist í aðdraganda þess. Fleiri en ein ákæra ætti að hafa litið dagsins ljós.

Hún segist hlakka til að sjá fyrstu ákærurnar sem komi frá embætti sérstaks saksóknara á hendur þeim sem báru ábyrgð á hruninu. Mikilvægt sé að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, gefi út ákærur fyrr en síðar. Hún sýni því skilning að rannsóknir málana taki langan tíma en nú séu liðin þrjú ár og engin ákæra á hendur gerendum hrunsins hafi litið dagsins ljós.