Tap veitingahússins Jómfrúin árið 2018 nam 19,5 milljónum króna samanborið við 16,9 milljóna króna hagnað árið áður. Hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld, einnig þekkt sem EBITDA, nam 22,5 milljónum en sú stærð var 43,3 milljónir árið 2017 og lækkaði því um 48% á milli ára. Laun og launatengd gjöld félagsins hækkuðu úr 132 milljónum króna í 155 milljónir sem gerir um 17% aukningu. Á sama tíma hafa tekjur félagsins aukist örlítið eða úr 330 milljónum í 332 milljónir.

Eignir félagsins lækkuðu um 13,5% á milli ára eða frá 143 milljónum króna í 124 milljónir en lækkun fastafjármuna vegur þar þyngst, þeir lækkuðu úr 107 milljónum króna í 78.

Skuldir félagsins hafa nánast staðið í stað en eigið fé lækkaði frá 36 milljónum króna niður í 17 milljónir. Eiginfjárhlutfall þess lækkaði því allnokkuð á milli ára eða úr 25,2% niður í 13,4%.

Eigendur félagsins eru tveir, Eyja fjárfestingafélag sem á 60% hlut og síðan Jakobsson ehf. sem á 40% af hlutafé félagsins.