Fyrsta vél Wow air er farin í loftið áleiðis til Parísar í Frakklandi. Formlegt áætlunarflug félagsins hefst á sunnudag, 3. júní næstkomandi, og fljúga vélar Wow air til 13 áfangastaða í Evrópu.

Fram kemur í tilkynningu frá Wow air að flugfloti félagsins samanstandi af tveimur Airbus A320, 168 sæta flugvélum, með auknu sætarými og fótaplássi fyrir farþega. Vélarnar eru leigðar frá félaginu Avion Express og eru merktar WOW Force One og WOW Force Two með fjólubláum stöfum sem er einkennislitur WOW air. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á einstaka þjónustu sem mun skila sér í mun léttari og skemmtilegri ferðaupplifun en Íslendingum hefur áður staðið til boða en félagið vill samsvara sér með flugfélögum eins og Virgin, South West og Kulula.

Hjá Wow air starfa í dag 80 manns. Ráðningar á fleiri starfsmönnum í viðbót standa nú yfir en um 450 manns sóttu um stöðugildi sem félagið auglýsti laus nýlega.  Félagið starfrækið einnig ferðaskrifstofuna WOW ferðir sem sérhæfir sig í ferðum á helstu áfangastaði móðurfélagsins og mun auka framboð sitt verulega á komandi misserum.

Félagið boðar aukna samkeppni á markaði en eitt af megin markmiðum er að gera flugferðir til og frá landinu ódýrari en áður hefur sést.  Nú þegar má merkja lækkun fargjalda  með innkomu WOW air.

Drauma Skúla Mogensen rætast

Haft er eftir Baldri Oddi Baldurssyni framkvæmdastjóra að þetta séu spennandi tímar. „Við teljum ferðamannamarkaðinn á Íslandi vera að stækka og ætlum okkur hlut í þeirri köku. Við vonumst til að sjá áframhaldandi fjölgun í heimsóknum erlendra ferðamanna til og frá Íslandi en einnig vonumst við til að sjá aukningu hjá íslenskum ferðamönnum í kjölfar batnandi efnahagsástands og lækkandi flugfargjalda.  Við höfum nú þegar fengið móttökur framar björtustu vonum og erum innilega þakklát fyrir það.“

Skúli Mogensen, eigandi og stjórnarformaður Wow air, segir jafnframt fátt magnaðra en að sjá drauma verða að veruleika. „Í dag er WOW air orðið að veruleika og ég er óheyrilega stoltur yfir þeim frábæra hópi starfsfólks sem hefur unnið dag og nótt við að láta drauminn okkar um að fljúga verða að veruleika.  Ég er sannfærður um að þetta sé aðeins byrjunin á löngu ferðalagi sem við hlökkum til að deila og njóta með gestum okkar út um allan heim.“