Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi hafi fyrir helgina keypt hlut í Williams-liðinu í Formúlu 1 í eigin nafni, en sagt er að þar ræði um þriðjungshlut í þessu fornfræga keppnisliði í kappakstri. Sem kunnugt er hefur leikfangaverslanakeðjan Hamleys, sem er í eigu Baugs, verið einn af stuðningsaðilum liðsins um hríð.

Williams-liðið er eitt af „stóru“ liðunum fjórum í Formúla 1 keppninni og hið eina þeirra, sem ekki tengist neinum bílaframleiðanda beinum böndum.

Vélar Williams eru nú smíðaðar af Toyota. Hin eru Ferrari, McLaren,  og Renault. Ökumenn liðsins eru þeir Nico Rosberg og Kazuki Nakajima, en nú er liðlega áratugur liðinn síðan Williams vann Formúlu 1 keppnina síðast.