„Ég er himinlifandi,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs og FL Group, í kjölfar þess að hann var sýknaður í Aurum-málinu svokallaða í héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Hann segir í tölvuskeyti til Bloomberg-fréttastofunnar ætíð hafa haldið fram sakleysi sínu og hlakki nú til að byggja feril sinn sem fjárfestir í smásölugeiranum á nýjan leik.

Aurum-málið snýst í stuttu máli um sex milljarða króna lánveitingu Glitnis til félagsins FS28 sumarið 2008. Lánið var veitt til að fjármagna kaup FS38 á tæplega 26% hlut Fons, félags Pálma Haraldssonar, á bresku skartgripakeðjunni Aurum Holding. Hinir ákærðu í málinu voru auk Jóns Ásgeirs þeir Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis banka. Þeir voru ákærðir fyrir meint umboðssvik í málinu. Þeir voru allir sýknaðir í gær.

Í umfjöllun Bloomberg er rifjað upp að fyrir efnahagshrunið 20078 var Jóns Ásgeir á meðal auðugustu mönnum landsins en eignir hans námu 1,6 milljörðum dala, jafnvirði 180 milljarða íslenskra króna.