Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Baugs Group, sem átti Haga, en misstu þá í hendur kröfuhafa eftir hrun, hyggst bíða fram á aðalfund í júní með að bjóða sig fram til stjórnar í Högum á ný að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær náði Jón Ásgeir ekki kosningu í stjórn Haga á hluthafafundi félagsins á föstudag, en 365 miðlar hf., félag konu hans Ingibjargar Pálmadóttur, átti samkvæmt hluthafalista á vef félagsins 2,76% um áramótin. Í október var sagt frá því að félagið hefði keypt rúmlega 3% hlut í Högum , en árið 2016 keypti annað félag í eigu Ingibjargar tæplega 1% hlut.

„Það er stutt í næsta fund í júní. Við bíðum þangað til, enda tel ég farsælast að stjórnendur og stjórn hafi frið þangað til til þess að sinna rekstrinum,“ segir Jón Ásgeir, en í fréttum fyrr í vikunni kom fram að þeim hjónum í samfloti 12 minni fjárfesta hefði mistekist að knýja á um margfeldiskosningu til stjórnarinnar.

Samanlagt átti hópurinn liðlega 10,5% hluta í Högum, sem er yfir 10% markinu sem þarf til að knýja á um margfeldiskosningu, en hún fer fram þannig að gildi hvers atkvæðis er margfaldað með fjölda stjórnarmanna, en í Högum eru þeir 5. Þannig reiknuðu, það er fimmfallt atkvæðavægi, geta hluthafar þá ákveðið að skipta atkvæðamagni sínu á fimm stjórnarmenn eða færri svo hægt er að nýta atkvæðavægið allt á bakvið einn mann.

Ekki varð þó úr að margfeldiskosningu væri beitt þar sem stjórn Haga taldi að umboðs eins af aðilinum til að fara með atkvæðarétt á fundinum ekki vera fullnægjandi, vegna framvirks samnings. Því var beitt meirihlutakosningu, sem þýðir að meirihlutinn ræður öllum fimm stjórnarsætunum, og varð úr að kosnir voru þeir sem tilnefningarnefnd hafði mælt með.

„Með tilkomu tilnefningarnefnda er alveg ljóst að þeir sem ekki hljóta náð fyrir þeirra augum eiga á brattann að sækja,“ segir Jón Ásgeir jafnframt.

„Stofnanafjárfestar eru gjarnir á að kjósa í samræmi við tillögur nefndanna, og reynslan sýnir að þær byggja mat sitt að stærstu leyti á samráði við allra stærstu hluthafana. Ég tel því algerlega nauðsynlegt að vernda minni hluthafa, og margfeldiskosning er lýðræðislegasta kosningakerfið sem hlutafélagalögin bjóða upp á.“