„Það er skelfilegt að upplifa þá tilfinningu að Hæstiréttur haldi hlífiskildi yfir óheiðarlegum embættismanni en láti réttindi fjögurra einstaklinga lönd og leið.“ Þetta segir Jón Ásgeir Jóhannesson í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag, en þar fer hann yfir ómerkingu Hæstaréttar Íslands á dómi héraðsdóms í Aurum-málinu svonefnda.

Jón Ásgeir hafði verið sýknaður í dómi héraðsdóms en saksóknari áfrýjaði og krafðist ómerkingar vegna ættartengsla Sverris Ólafssonar, sérfróðs meðdómanda í málinu, við Ólaf Ólafsson sem dæmdur var í Al-Thani málinu á dögunum. Hæstiréttur ómerkti dóminn vegna ummæla meðdómandans í málinu sem hann lét falla eftir sýknudóminn. Taldi rétturinn ummælin gefa tilefni til þess að draga mætti óhlutdrægni hans í efa.

„Vegna málsmeðferðarinnar fyrir Hæstarétti upplýsti einn virtasti dómari landsins, sem dæmdi málið í héraði, að sérstakur saksóknari hefði hringt til sín meðan á málarekstrinum stóð og sagt sér af því að Sverrir Ólafsson, sem var meðdómandi í málinu, og Ólafur Ólafsson væru bræður. Eftir að sýknudómur í héraði var kveðinn upp lét sérstakur saksóknari eins og hann hefði ekkert vitað af tengslunum. Hæstiréttur blessar þetta og dæmir að sérstakur skuli fá annað tækifæri í sakamáli, sem hann tapaði,“ skrifar Jón Ásgeir.

Jón Ásgeir spyr í greininni hvaða hugsanlegu ástæðu héraðsdómarinn hafi haft til að ljúga til um samskipti sín við sérstakan saksóknara. „Skiptir ekki máli að bréf liggur frammi í málinu frá meðdómaranum sem styður frásögn héraðsdómarans? Af hverju er svona rugl í kerfinu tekið út á okkur sem vorum sýknaðir? Ekki er við okkur að sakast um það sem gerðist. Eigum við ekki að njóta vafans?“