Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, greindi frá því í samtali við bandaríska fjölmiðla að hann væri síður en svo búinn að missa áhugann á bandarísku verslanakeðjunni Saks þótt verslun með lúxusvörur eigi undir högg að sækja. Í frétt New York Post er haft eftir Jóni Ásgeiri að hann telji Saks starfa á mjög áhugaverðu verslunarsviði og að hann hafi ekki breytt þeirri skoðun sinni að Saks sé mjög gott fyrirtæki. Sú staðreynd að bréf félagsins hafa lækkað verulega undanfarið breytir því ekki.

Jón Ásgeir var þátttakandi í pallborðsumræðum á hinni árlegu smásölumálaráðstefnu fjárfestingarbankans Financo sem fram fór í New York á mánudagskvöldið. Þar deildi hann reynslu sinni með og kynnti auk þess Baug fyrir rúmlega 250 áhrifamiklum stjórnendum í smásölufyrirtækjum um öll Bandaríkin. Þema ráðstefnunnar í ár var "Building a Brand Experience" eða "Lifandi vörumerkjasetning". Jón Ásgeir svaraði spurningum um mikilvæg málefni í tengslum við smásölurekstur og sagði frá reynslu Baugs af því að flytja vörumerki yfir landamæri og inn á nýja markaði.

Aðrir viðmælendur á ráðstefnunni voru m.a. Jim Gold, forstjóri Bergdorf Goodman; Robert Hanson, forstjóri Levi Strauss í Norður-Ameríku og Mike Ullman, forstjóri og stjórnarformaður JC Penney.