„Það kemur þér ekki við,“ sagði Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi 365 miðla, þegar Viðskiptablaðið spurði hann hvort búið væri að útvega milljarð króna til þess að setja inn í félagið, eins og kveður á um í samningum við Landsbankann að skuli vera búið fyrir 1. apríl nk.

Ari Edwald, forstjóri 365, hefur sagt í viðtali við Viðskiptablaðið að það sé búið að útvega milljarð til viðbótar í hlutafé félagsins.

Stjórn 365 hefur þegar samþykkt á stjórnarfundi að auka hlutafé félagsins en Landsbankinn getur gjaldfellt 4,3 milljarða skuld takist ekki að auka hlutféð um milljarð fyrir 1. apríl, samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi 365.

Fyrirtækið á meðal annars Fréttablaðið, Bylgjuna, Stöð 2 og útvarpsstöðina FM 957. Forsvarsmenn 365 gerðu samkomulag við Landsbankann í lok árs 2008 um að fresta afborgunum af lánum í fyrra. Frá upphafi þessa árs hefur félagið borgað af lánum.