Jón Ásgeir Jóhannesson var í dag dæmdur af Hæstarétti í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 62 milljóna króna sektar í skattahluta Baugsmálsins svokallaða. Tryggvi Jónsson var dæmdur í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 32 milljóna króna sektar og Kristín Jóhannesdóttir var dæmd í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Í dómi Héraðsdóms var ákvörðun refsingar frestað.

Hæstiréttur sakfelldi Jón Ásegir fyrir fimm brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið fjármagnstekjur, fyrir að vantelja tekjur af nýtingu kaupréttar, tekjur í formi launauppbótar, söluhagnað af hlutabréfum og tekjur af hlutareign. Þá stóð hann ekki skil á sköttum í þessum tilvikum. Alls var hann sakfelldur fyrir að vantelja við eigin skattskil rúmar 172 milljónir króna og standa ekki skil á sköttum að fjárhæð 25,3 milljónir.

Þá var Jón Ásgeir sakfelldur fyrir fjögur brot í starfsemi Baugs á árunum 1998 til 2000. Vandtaldi hann launagreiðslur, skilaði rangri skilagrein og hélt ekki eftir og skilaði staðgreiðslu í þessum tilvikum. Var hann sakfelldur fyrir að hafa vantalið í starfsemi Baugs launatekjur að fjárhæð 19,4 milljónir og fyrir að standa ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra að fjárhæð 7,5 milljónir.

Ákæruvald og héraðsdómur snupruð

Tryggvi var sakfelldur fyrir þrjú brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið launatekjur sínar, fyrir að vantelja tekjur af nýtingu kaupréttar á hlutabréfum og tekjur í formi launauppbótar. Þá stóð hann ekki skil á sköttum í sömu tilvikum. Samtals var Tryggvi sakfelldur fyrir að vanteljavið eigin skattskil alls 28,8 millojónir króna og fyrir að standa ekmki skil á 13,1 milljón í opinber gjöld.

Tryggvi var jafnframt sakfelldur fyrir eitt brot í starfsemi Baugs fyrir að hafa vantalið launagreiðslu rog skilað rangri skilagrein að fjárhæð átta milljónir. Stóð hann því ekki skil á fjárhæð sem nam 3,1 milljón króna.

Kristín var sakfelld fyrir að hafa skilað röngu skattframtali fyrir Fjárfestingafélagið Gaum árið 2001 þar sem tekjur voru vantaldar sem nam 916,1 milljón króna. Þá skilaði hún röngu skattframtali árið 2003 þar sem oftalin var til gjalda niðurfærsla tiltekinna hlutabréfa og tap þess því oftalið um 74 milljónir.

Hæstiréttur átelur bæði ákæruvaldið og Héraðdsóm. Verulegur dráttur hafi orðið á rannsókn málsins, sem ekki sé hægt að kenna sakborningum um. Húsleit hafi farið fram í ágúst 2002 en ákæra ekki gefin út fyrr en í desember 2008. Litið hafi verið til þessa við ákvörðun refsingar. Þá segir í dómi Hæstaréttar að meðferð málsins í Héraði hafi farið gróflega í bága við ákvæði sakamálalaga. Ákæruvaldinu og hverjum ákærða hafi verið veittur kostur á að skila fjórum greinargerðum auk bókana og verði að átelja þessa málsmeðferð harkalega.

Dómur Hæstaréttar.