Jón Ásgeir Jóhannesson fékk í mars sl. L1 vegabréfsáritun frá bandaríska útlendingaeftirlitinu. Um er að ræða vissa útgáfu af atvinnu- og dvalarleyfi en þó ekki græna kortið svokallaða.

Þetta kemur fram í varnargrein Jóns Ásgeirs fyrir dómstóli í New York þar sem hann, ásamt öðrum stjórnarmönnum Glitnis banka, sætir nú stefnu af hálfu slitastjórnar Glitnis.

Varnargrein, eða greinargerð, Jóns Ásgeirs er rúmar 50 síður. Þar kemur meðal annars fram að Jón Ásgeir hafi í mars sl. fengið umrædda vegabréfsáritun en mjög erfitt er fyrir útlendinga að fá atvinnuleyfi í Bandaríkjunum. Um er að ræða tímabundið atvinnuleyfi sem veitt er til þriggja ára í senn að hámarki.

„Ég sótti um þessa vegabréfsáritun til að geta ferðast frjálst til og frá Bandaríkjunum auk þess að geta unnið í Bandaríkjunum ef tækifæri byðist,“ segir í greinagerð Jóns Ásgeirs í lauslegri þýðingu Viðskiptablaðsins.

Fram kemur að Jón Ásgeir haldi til í íbúð sinni við Gramercy Park. Hins vegar sé honum skylt að rýma íbúðina innan skamms vegna samkomulags á milli eiginkonu hans, Ingibjargar Pálmadóttur, við Landsbankann. Nánar verður fjallað um það samkomulag síðar í dag.

Þá kemur fram, eins og Viðskiptablaðið reyndar greindi frá í vor, að bæði Jón Ásgeir og Ingibjörg skráðu lögheimili sitt í Bretlandi í janúar sl.