Jón Ásgeir Jóhannesson situr enn í stjórn nokkurra hlutafélaga hér á landi, þrátt fyrir að hlotið þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir nokkrum mánuðum, en samkvæmt 66. grein hlutafélagalaga mega stjórnarmenn hlutafélaga ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað á síðustu þremur árum.

Þegar Viðskiptablaðið leitaði útskýringa á áframhaldandi stjórnarsetu Jóns Ásgeirs, t.a.m. í stjórn 365-miðla, fengust þau svör hjá Hlutafélagaskrá að honum væri ekki skylt að víkja fyrr en á næsta aðalfundi eftir dómsuppkvaðningu.

Síðasti aðalfundur 365-miðla var haldinn 14. mars síðastliðinn en hæstaréttardómur féll yfir Jóni þremur mánuðum síðar í byrjun júní.

Aðalfund 365-miðla skal samkvæmt lögum félagsins halda eigi síðar en í ágúst ár hvert og því getur Jón Ásgeir setið skammlaust í stjórn í tæpt ár til viðbótar.

Hvað aðrar stjórnarsetur Jóns varðar segist talsmaður Hlutafélagaskrár hafa enga ástæðu til að ætla annað en að hann muni segja sig úr stjórnum þeirra félaga á komandi aðalfundum.