Síðustu ár hefur Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrv. stjórnarformaður Baugs, verið umsvifamikill í fjölmiðlarekstri hér á landi. Þannig á hann og rekur 365 miðla, sem meðal annars rekur Stöð 2 og Fréttablaðið, en áður átti Jón Ásgeir einnig ráðandi hlut í því sem í dag heitir Birtingur og gefur meðal annars út DV.

Í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag segir Jón Ásgeir að á sínum tíma hafi hann fjárfest í Fréttablaðinu af því að Morgunblaðið einokaði auglýsingamarkaðinn. Að öðru leyti segist Jón Ásgeir hafa trú á fjölmiðlum sínum, þá sérstaklega Stöð 2 og Fréttablaðinu.

Hann viðurkennir þó að rekstur 365 sé í járnum í dag en félagið eigi engu að síður eftir að spjara sig. Þá segir Jón Ásgeir, aðspurður, að hann sé ekki að borga með rekstri félagsins í dag en hann búist þó við því að setja inn frekara fjármagn inn í það.  Fyrir síðustu áramót keypti félag í eigu Jóns Ásgeirs, Rauðsól, fjölmiðlahlutann út úr Íslenskri afþreyingu (sem nú er í gjaldþrotaskiptum) fyrir um 1,5 milljarð króna. Mikil umræða skapaðist um kaupin og eins og gefur að skilja var þeirri spurningu velt upp hvaða fjármálastofnun á Íslandi hefði fjármagn til að lána fyrir fjölmiðlakaupum og voru bæði Landsbankinn og Byr nefndir í því sambandi.

Aðspurður nánar um þetta segir Jón Ásgeir að hann hafi fjármagnað kaupin að mestu leyti sjálfur, fyrir sitt eigið fé og enginn banki hafi lánað fyrir kaupunum.

Í samtali við Viðskiptablaðið svarar Jón Ásgeir spurningum um hrun Baugs, hans eigið líf og fjárhag, tengsl og styrki til stjórnmálaflokka, tilgang þess að eiga fjölmiðla auk þess sem hann gagnrýnir umræðuna um bæði sig og hina svokölluðu útrásarvíkinga.

Þá tjáir Jón Ásgeir sig um þær rannsóknir sem nú standa yfir, fjárfestingar Baugs á Íslandi síðustu ár, mögulega eignasölu, stöðutöku gegn krónunni, aðdraganda bankahrunsins og eftirmála og margt fleira.

_____________________________

Áskrifendur nálgast blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .