Jón Ásgeir talinn fjórði áhrifamesti kaupsýslumaðurinn í smásöluverslun í Bretlandi. Breska tímaritið Retail Week hefur birt lista yfir þá kaupsýslumenn sem það telur vera áhrifamesta á sviði smásöluverslunar í Bretlandi og er Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, þar í 4. sæti.

Í efsta sæti er Sir Terry Leahy, forstjóri verslunarkeðjunnar Tesco, Philip Green, eigandi Bhs og Arcadia er í 2. sæti og Stuart Rose, forstjóri Marks & Spencer er í 3. sæti.

Listinn var gerður í samráði við sérfræðinga í smásöluverslun í Bretlandi. Segir tímaritið að Leahy sé drifkrafturinn á bak við ótrúlegan vöxt Tesco, en hagnaður fyrirtækisins nam yfir 2 milljörðum punda á síðasta ári.