„Matið er svo gallað að við munum fara fram á yfirmat, til dæmis er ekkert tillit tekið til eiginfjár og birgða upp á átta milljarða í matinu," segir Jón Ásgeir Jóhannesson, sem hefur verið stefnt ásamt fimm öðrum af slitastjórn Glitnis, um verðmat dómskvaddra matsmanna á Aurum.

Glitnir lánaði sex milljarða til að kaupa hlut Fons í Aurum Holding en dómskvöddu matsmennirnir, Gylfi Magnússon og Bjarni Frímann Karlsson, segja verðmæti félagsins liggja á bilinu núll til 929 milljónir króna. Niðurstaðan er að miðað við miðgildi matsins hafi þrettánfalt matsverð verið greitt fyrir hlutinn með láni frá Glitni, sem lítið mun fást upp í. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Viðbrögð Jóns Ásgeirs bárust blaðinu skriflega.