Jón Ásgeir Jóhannesson, einn sjömenninganna sem slitastjórn Glitnis stefndi fyrir dómstóli í New York og krafðist um 250 milljarða í bætur fyrir að „ræna Glitni innan frá“, segir slitastjórn Glitnis hafa farið fram með offorsi.

Dómari í New York vísaði málinu frá fyrr í dag á þeim forsendum að málið ætti ekki heima í New York þar sem allir sem því tengdust væru íslenskir.

„Þetta lá alltaf fyrir í mínum huga. Málið átti aldrei heim í New York,“ sagði Jón Ásgeir í samtali við Viðskiptablaðið fyrir skemmstu.

Hann var ekki viðstaddur þegar málflutningur fór fram. Hann sagði það hafa komið á óvart að dómarinn hefði verið svona fljótur að komast að niðurstöðu. Það segði sína sögu um hversu augljóst það hefði verið, að málið ætti ekki heima í New York.

„Slitastjórnin hefur nú brennt upp milljörðum fyrir kröfuhafa. Við höfum orðið fyrir miklum óþægindum og höfum tapað miklum peningum. Ég geri ráð fyrir að við munum fara í skaðabótamál vegna þessa,“ sagði Jón Ásgeir, en hann var staddur í London.