Jón Ásgeir Jóhannesson neitaði því í þættinum Silfur Egils að hann muni hafa ítök í Baugi Group ef af kaupum Sir Philip Green á félaginu verður.

„Maðurinn sem á lánin á félagið eins og staðan er í dag. Ég fæ enga þóknun fyrir, ég er fyrst og fremst að reyna að bjarga 55.000 manns sem starfa hjá okkur í Bretlandi frá því að missa vinnuna,“ sagði Jón Ásgeir.

Egill Helgason fór mikinn í þættinum og sagði m.a. talað um að að Baugur skuldi íslenskum bönkum 300 milljarða króna og Stoðir skuldi 260 milljarða. Hann innti Jón Ásgeir eftir því hvernig félögin hafi getað fengið svo mikil lán frá bönkum, sem þau áttu hluti í. Jón Ásgeir lagði áherslu á að yfirleitt hafi verið keyptar góðar eignir fyrir lánsféð sem hafi þá staðið á móti láninu.

„Það var náttúrulega oft á tíðum verið að kaupa mjög góðar eignir fyrir peningana,“ sagði Jón. „Við teljum reyndar enn að eignirnar séu góðar, en ef þær fara á brunaútsölu þá náttúrulega fæst ekki gott verð fyrir þær. Sú aðgerð sem farið var í gegn okkur, þ.e. yfirtaka ríkisins á Glitni sem olli því að Stoðir urðu að fara í greiðslustöðvun, hafði í för með sér ákveðna keðjuverkun sem við sjáum enn ekki fyrir endann á.“

Egill Helgason staðhæfði m.a. að útrásarvíkingarnir svokölluðu hafi byggt upp gríðarlega svikamyllu, með því að veðsetja verðlausa pappíra í botn. Jón Ásgeir sagði það vera fjarri lagi.

„Var Lehman Brothers svikamylla? Voru fasteignasjóðirnir í Bandaríkjunum svikamylla?“ spurði Jón. „Þetta er ekki séríslenskt mál og pappírarnir urðu ekki verðlausir fyrr en eignir voru teknar af mönnum. Okkur óraði ekki fyrir að eignir yrðu teknar af okkur, við vöruðum við yfirtöku ríkisins á Glitni. Sagan mun sýna að Glitnir var fjarri því gjaldþrota og ég tel að verið sé að henda þúsundum milljarða á bálið. Aðförin að Glitni hefur sett af stað dómínó sem sér ekki fyrir endann á,“ sagði Jón Ásgeir.

Aðspurður um hvort hann hafi skotið peningum undan í varasjóð handa sjálfum sér, svaraði Jón því til að hann hefði allt sitt undir.

„Ég á örugglega mest rannsakaða fyrirtæki Íslandssögunnar. Í 6 ár var farið í hverja einustu skúffu í fyrirtækinu. Ég er með allt mitt undir og hef ekki komið neinum peningum undan til persónulegra nota,“ sagði Jón.