Jón Ásgeir Jóhannesson segir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið sem kemur út á morgun, að Baugur hefði átt að hætta fjárfestingum eftir kaupin á Big Food Group árið 2005. Þetta hafi verið góð fjárfesting og ef þetta hefði verið gert væri hann í góðum málum í dag.

Fyrir tæpum tveimur árum sagði Jón Ásgeir Jóhannesson, þá stjórnarformaður Baugs, að eiginfjárhlutfallið yrði að fylgja aldrinum, sem sagt að áhættusæknin minnkaði með aldrinum. Jafnframt sagðist Jón Ásgeir ekki vera eins áhættusækinn og áratug fyrr.

Á þessum tíma nam velta félaga í eigu Baugs um 10 milljörðum punda, hjá félaginu störfuðu um 70 þúsund manns í 3.800 verslunum í 35 löndum. Nú, tæpum 2 árum síðar, má segja að Baugsveldið sé hrunið.

„Við áttum að hætta þegar við keyptum Big Food Group árið 2005 og halda okkur við verslun. Svona eftir á að hyggja hefði það verið skynsamlegast. Þá hefðum við verið í góðum málum í dag,“ segir Jón Ásgeir meðal annars í viðtali við Viðskiptablaðið sem kemur út á morgun.

Jón Ásgeir segir Big Food félögin, Iceland og Booker, gefa 35 milljarða í frjálst sjóðsstreymi á þessu ári. „Hefði Baugur haldið sínum ráðandi hlut í þessum félögum þá hefði verið hægt að standa undir skuldum Baugs auðveldlega enda var skuldsetning félagsins 2005 heilbrigðari þá en síðar varð með auknum fjárfestum í ólíkum geirum sem við hefðum betur látið vera,“ segir Jón Ásgeir en bætir við að það hafi ekki bara verið hjá Baugi sem skuldsettar yfirtökur brugðust.

Jón Ásgeir hefur verið fyrirferðarmikill í íslensku viðskiptalífi síðustu árin. Í samtali við Viðskiptablaðið svarar Jón Ásgeir spurningum um hrun Baugs, hans eigið líf og fjárhag, tengsl og styrki til stjórnmálaflokka, tilgang þess að eiga fjölmiðla auk þess sem hann gagnrýnir umræðuna um bæði sig og hina svokölluðu útrásarvíkinga.

Þá tjáir Jón Ásgeir sig um þær rannsóknir sem nú standa yfir, fjárfestingar Baugs á Íslandi síðustu ár, mögulega eignasölu, stöðutöku gegn krónunni, aðdraganda bankahrunsins og eftirmála og margt fleira.

_____________________________

Nánar er rætt við Jón Ásgeir í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun . Áskrifendur geta nú þegar nálgast blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .