Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, segir í samtali við bandaríska viðskiptablaðið The Wall Street Journal að fyrirtækið hafi áhuga á að fjárfesta á Bandaríkjamarkaði.

?Bandaríkin munu örugglega vera næsti markaður sem við skoðum," segir Jón Ásgeir, sem hefur fest kaup á húsnæði á Manhattan sem er verið að gera upp. Hann segist búast við því að endurbótum á húsnæðinu verði lokið í ágúst.

Blaðamaður Wall Street Journal fjallar um Baugsmálið og ræðir meðal annars við Davíð Oddsson, fyrrverandi utanríkis- og forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóra.

Í greininni segir Jón Ásgeir að Baugsmálið sé pólitískt og hann neitar því að hafa brotið lög. Davíð neitar því að Baugsmálið sé pólitískt en tekur þó fram að honum finnist sumir íslenskir kaupsýslumenn hafa of mikil völd.

?Það er óheilbrigt ef fyrirtæki verða of stór og nota styrk sinn til að hamla samkeppni," segir Davíð í samtali við Wall Street Journal.