Jón Ásgeir Jóhannesson var kjörinn í stjórn Wedo, móðurfélags Heimkaupa, á hluthafafundi í lok síðasta árs. Jón Ásgeir, sem er stjórnarformaður Skeljungs, kom inn í stjórnina um svipað leyti og Skeljungur jók hlut sinn í félaginu fyrir 222 milljónir króna í hlutafjáraukningu í janúar og á nú 33% hlut í Wedo, samkvæmt ársreikningi Skeljungs sem var birtur í gærkvöldi.

Hlutdeild Skeljungs í afkomu Wedo var neikvæð um 211 milljónir króna á síðasta ári en Skeljungur fór með 25% hlut í lok síðasta árs. Í fjárfestingakynningu Skeljungs segir um Wedo að sókn á matvörumarkaðinn hafi verið kostnaðarsöm. Fjórðungshlutur Skeljungs í Wedo var bókfærður á 135 milljónir króna í árslok 2021.

Sjá einnig: Skeljungur verður SKEL Fjárfestingafélag

Auk Jón Ásgeirs þá kemur Gísli Jón Magnússon, framkvæmdastjóri Norvik, inn í stjórnina ásamt Sigríði Gröndal, framkvæmdastjóra vörustjórnunar Byko. Norvik var stærsti hluthafi Wedo í árslok 2020 með 28% eignarhlut. Jón Diðrik Jónsson, sem á í Wedo í gegnum Draupni fjárfestingafélag, og Anna Linda Magnúsdóttir sitja áfram í stjórn Wedo.

Þá hefur Hjalti Baldursson verið ráðinn framkvæmdastjóri Wedo. Hjalti leiddi fjárfestahóp sem keypti 40% hlut í Wedo árið 2020 en samhliða fjárfestingunni var hluatfé samstæðunnar aukið um 1,3 milljarða króna.