Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú kæru Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á hendur Inga Frey Vilhjálmssyni, ritstjórnarfulltrúa DV.

Kæran lýtur að meintum brotum á lögum um fjarskipti fyrir að hafa birt tölvupóst Jóns Ásgeirs til starfsmanns Iceland-verslananna, Guðrúnar Þórsdóttur, eiginkonu föður hans, og Einars Þórs Sverrissonar lögmanns. Ingi Freyr birti tölvupóstinn í DV í desember en þá var hann fréttastjóri DV. Ingi Freyr hefur verið boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu vegna málsins, að því er fram kemur á DV.is.

Í 47. grein fjarskiptalaga segir að sá „sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum og táknum eða hlustar á símtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkur hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna sendanda að upplýsingar hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum."