Stjórn 365 hf. samþykkti á stjórnarfundi í gær að selja alla fjölmiðla sína til Rauðsólar ehf., félags í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Með í kaupunum fylgir 36,5% hlutur í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Ríkisútvarpið greinir frá þessu.

365 hf. skiptist í 365 miðla annars vegar og Senu hins vegar. Undir 365 miðla heyrir rekstur Stöðvar 2, Bylgjunnar og Fréttablaðsins.

Rauðsól ehf. greiðir 1,5 milljarða króna fyrir fjölmiðla 365 og tekur auk þess yfir 2 milljarða af skuldum félagsins.

Beðið er samþykkis Samkeppniseftirlitsins fyrir samruna Fréttablaðsins og Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, en gangi samruninn eftir verður Jón Ásgeir stærsti einstaki hluthafinn í Árvakri með 36,5% hlut.

Þar með verður Jón Ásgeir stærsti eigandi allra einkarekinna fjölmiðla landsins, fyrir utan Viðskiptablaðið og Skjá einn.