Jón Ásgeir Jóhannesson athafnamaður telur að rannsóknir ákæruvaldsins geng sér í Baugs- og Aurum málunum hafi byggst á óvild gegn sér sem eigi pólitískar rætur og nái langt aftur. Þetta kemur fram í viðtali við Jón Ásgeir á Hringbraut.

„Það bjó að baki ákveðin kergja sem byrjaði á Bónusárunum. Við förum að takast á við aðila sem eru innstu koppur í búri í Sjálfstæðisflokknum, svokallað heildsalaveldi sem að lenti í vandræðum og menn komust ekki upp með okur sem hafði staðið yfir um langt skeið. Ákveðnir  pólitískir aðilar litu svo á að við værum að spila án þess að tala við þá. Það hefur sést annars staðar að þeir sem eru að byggja upp viðskiptaveldi og biðja ekki um leyfi frá pólitíkusum, þeir lenda oft í vandræðum, að þessu afli er beint gegn þeim,“ segir Jón Ásgeir.

Hann var í sýknaður í Landsrétti í október af ákæru um hlutdeild í umboðssvikum í Aurum málinu.„Maður upplifði þetta bara sem ofbeldi, sérstaklega þegar málið var í rannsókn,“ segir hann um málið. Þá hafi rannsakendur í Baugsmálinu verið að rannsaka málið til sektar. „Þeir eru ekki stærri menn.“

Þá hafi hann fengið að finna fyrir óvild Davíðs Oddssonar gegn sér. „Ef maður rifjar upp söguna þá er það nokkuð klárt. Hann kenndi hann okkur um verðbólguna í kringum aldamótin og svo trylltist allt þegar við komum að Fréttablaðinu," segir Jón Ásgeir.

„Menn litu þannig á það að við værum að ganga erinda miðjuafla í samfélaginu sem ætluðu að hrifsa völdin af íhaldinu.“