Lárus Welding, þá forstjóri Glitnis, taldi Jón Ásgeir Jóhannesson, þá aðaleiganda bankans, koma fram við sig eins og útibússtjóra, ekki forstjóra. Þetta kemur fram í stefnu slitastjórnar Glitnis gegn þeim tveimur og mörgum öðrum viðskiptafélögum Jóns Ásgeirs.

Í stefnunni segir að Lárus hafi fengið afar vel greitt fyrir að taka við forstjórastöðunni í Glitni eftir yfirtöku Jóns Ásgeirs á bankanum, þrátt fyrir feril sem gerði hann í besta falli vanhæfan til að gegna slíkri stöðu. Sporslur Lárusar voru í formi undirskriftarbónuss, launa, „sérstakra greiðslna“, árlegs bónus og kauprétta.

Í tölvupósti sem Lárusi sendi Jóni Ásgeiri 20. júní 2007 hafi Lárus í raun gengist við eðli þess sambands sem ríkti á milli þeirra, en Jón Ásgeir hafði þá sent honum nákvæmar leiðbeiningar um hvernig ákveðnir hlutir ætti að ganga fyrir sig. Í tölvupóstinum kvartar Lárus yfir því að Jón Ásgeir komi fram við hann „eins og útibússtjóra frekar en forstjóra (á ensku: „more like a branch manager than the CEO.“).