Jón Ásgeir Jóhannesson segir að Skel fjárfestingarfélag hafi framkvæmt stóran hlut af planinu sem Strengur, meirihlutaeigandi félagsins, lagði upp með fjárfestingu í félaginu. Spurður um markmið Skeljar til næstu 5-10 ára segir Jón Ásgeir, í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark, að félagið horfi til þess að fá inn erlenda fjárfesta sem hluthafa.

„Markmiðið er að búa til öflugt fjárfestingarfélag, markmiðið er að halda því skráðu, markmiðið er að fá erlenda fjárfesta að félaginu. Ég held að skráning sé mikilvægt atriði í því.“

Jón Ásgeir var kjörin í stjórn Skeljar, sem hét þá Skeljungur, árið 2019 eftir að 365, félag Ingibjargar Pálmadóttur eiginkonu hans, hafði keypt yfir 10% hlut í félaginu. Jón Ásgeir fer fyrir fjárfestingarfélaginu Streng sem gerði yfirtökutilboð í Skeljung í árslok 2020 og boðaði miklar breytingar. Fáir hluthafar tóku tilboðinu en Strengur eignaðist þó meirihluta í Skeljungi í janúar 2021.

Spurður af hverju hann hafi ákveðið að fara inn í Skel í upphafi, segir hann:

„Ég þekkti náttúrulega félagið, við áttum það á sínum tíma inn í Högum. Þarna var félag sem var með sterkan efnahagsreikning að við töldum, og dulið eigið fé í eignum sem þurfti að kreista fram með að láta efnahagsreikninginn svitna. Ná fram því sem hægt var að ná fram. Um þetta snerist planið.“

Hvað varðar fyrstu tækifærin sem hann horfði til, þá nefnir Jón Ásgeir færeyska dótturfélagið P/F Magn. Skel seldi Magn til Sp/f Orkufélagsins í lok síðasta árs fyrir 10 milljarða króna. Skel endurfjárefsti þó 2,8 milljörðum í Sp/f Orkufélaginu og fer með 48% hlut í færeyska félaginu.

„Færeyjar er lítill markaður, ekkert rosalega mörg vaxtartækifæri. Maður sá tækifæri í að selja þá eign, sem við gerðum að hluta. Þar með hófst þessi vegferð. Úr því fengum við fjármagn og greiddum niður allar skuldir félagsins. Sem leiddi að því að það var miklu auðveldara að skipta því upp. Það var svona fyrsti bolinn í þessu.“

Sjá einnig: Skel horfir til að skrá Skeljung og Orkuna á markað

Innlendri starfsemi Skeljar var skipt upp í þrjú dótturfélög á síðasta ári; Orkuna IS, Skeljung IS og Gallon. Auk sölunnar í Færeyjum og uppskiptingu á rekstrinum minnist Jón Ásgeir á sölu fasteigna og stofnun fasteignaþróunarfélagsins Reir Þróun með Fasta ehf.

„Þetta var svona leikkerfið sem maður sá fyrir sér með þetta félag. Ég hafði gert þetta með svipuðum hætti með félag erlendis sem hét Big Food Group. Þetta var á minni skala.“

Vantaði eigendadrifkraft

Í síðustu ársskýrslu Skeljar sagði Jón Ásgeir að þegar hann kom inn í félagið árið 2019 hafi andinn verið líkur því að mæta á fund í ríkisstofnun í gamla daga. Beðinn um að lýsa stemningunni í félaginu á þessum tíma segir Jón Ásgeir að honum hafi fundist mikil molla yfir félaginu.

„Kannski vantaði skýrari stefnu, vantaði svona eigendadrifkraft inn í félagið. Þú varst þess hratt mjög áskynja þegar þú komst að félaginu – þetta var sofandi félag. Því gekk ágætlega en það var kominn tímapunktur að hrista upp í því.“

Ómögulegt að setja alla undir sama launaþak

Í apríl síðastliðnum var Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason ráðinn forstjóri Skeljar og Magnús Ingi Einarsson fjármálastjóri. Skel gerði kaupréttarsamninga við þá upp á allt að 5% hlut í félaginu. Þáttastjórnendur minntust á þessa samninga og spurðu Jón Ásgeir um mikilvægi slíkrar árangurstengingar hjá stjórnendum fyrirtækisins.

„Ég hef sagt að það sé bara þannig í rekstri fyrirtækja og í öllu öðru, t.d. fótboltaliðum – menn eru misgóðir. Það er alveg ómögulegt að setja alla undir sama launaþak, sérstaklega í forstjórahlutverkinu sem er eins og að velja bestu íþróttamennina. Þeir kosta mismikið eftir getu.“

Kaupréttir, sem tengi saman hagsmuni forstjóra og hluthafa, hafi sannað gildi sitt á stærri mörkuðum að hans mati.

„Ég er líka talsmaður þess að menn reyni að koma slíkum kerfum á fyrir fleiri heldur en bara toppaðilana í fyrirtækjum. Það er gott að allir hafi eitthvað upp úr leiknum.“

Ekki hrifnir af einkaframtakinu í skráðum félögum

Frá því að Strengur náði yfirráðum yfir Skel hafa lífeyrissjóðir minnkaði hlut sinn talsvert í fyrirtækinu og ýmsir einkafjárfestar komið inn á móti. Spurður hvort að lífeyrissjóðir séu of smeykir við breytingar á rekstri skráðra félaga, segir Jón Ásgeir að ákveðnir sjóðir hafi í það minnsta ekki gaman að því að einkaframtakið stígi fram.

„Það hefur oft verið þannig, finnst manni, að ákveðnir sjóðir eru ekkert hrifnir af því að einkaframtakið komi inn í skráð félög. Þrátt fyrir að þeir tali um það á tyllidögum að það sé eðlilegt að það komi einstaklingsframtakið og drífi áfram félögin - að [lífeyrissjóðirnir] séu í hlutverki meðfjárfesta – þá er það ekki alltaf þannig.“

Sjá einnig: Kannast ekki við stuðningsyfirlýsingu

Hann nefnir að í tilfelli yfirtökutilboðs Strengs hafi það komið komið sér á óvart hvað það fór fyrir brjóstið á sumum forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna.

„Því það er nú klukkuverkið á markaðnum. Að fyrirtæki skrái sig, fyrirtæki sameinast og fyrirtæki fari af markaði. Maður skilur ekki af hverju Ísland ætti að vera frábrugðið í þeim efnum.“

Sjá einnig: Gildi selur og Taconic kaupir í Skeljungi

Gildi lífeyrissjóður seldi 8% hlut í Skel í byrjun ársins. Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis, sagði við Innherja að þar hafi m.a. spilað inn í að sjóðnum þótti ekki skýrt á hvaða vegferð félagið sé á.

„Jú jú þeir settu það fram að þeir skildu ekki vegferðina,“ segir Jón Ásgeir. „Að okkar mati var hún skýr. Menn kölluðu svo sem ekkert eftir að fá útskýringu á henni. Þegar Strengur setti fram yfirtökutilboð þá var það mjög skýrt sett fram hvert við ætluðum að fara með félagið.“

Hvað varðar góða samsetningu í hluthafhópi, þá segir hann það sé einfaldlega mikilvægt að hluthafar hafi sameiginlega sýn á rekstur félagsins og gangi í takt.

„Það er alltaf slæmt ef menn eru ekki sammála um framtíðarsýnina. Það er enn þá verra þegar menn segja ekki sína skoðun, þá er það enn erfiðara.“

Jón Ásgeir segir að einkaframtakið hafi verið mjög áberandi í skráðum félögum hér á landi fyrr á öldinni. Eftir hrunið hafi þetta orðið að lífeyrissjóðakerfi með tilheyrandi íhaldi. Lífeyrissjóðirnir einblíni kannski á aðra þætti í rekstri félaganna.

„Á síðustu árum komið inn einkafjárfestar - sem betur fer fyrir þessi fyrirtæki - og aðeins hrist upp í þessu.“