Að sögn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, aðaleiganda 365 miðla, er ráðning Davíðs Oddssonar sem ritstjóra Morgunblaðsins ekki góð fyrir trúverðugleika blaðsins og hann segir að blaðið undir ritstjórn Davíðs verði ófært um að fjalla um hans mál. ,,Þarna er bara verið að kaupa sér dýrt gjallarhorn,“ sagði Jón Ásgeir.

,,Þetta er ógæfuspor fyrir Morgununblaði og þetta mun stórskaða trúverðugleika blaðsins. Menn vita alveg hans skoðanir á mönnum og málefnum og hvernig hann mun beita sér. Ég er ekki einn um þá skoðun og meira að segja blaðamenn á Morgunblaðinu hafa hringt í mig í dag og lýst yfir þessum áhyggjum.“

- Krefst þetta einhverra viðbragða af hálfu ykkar á Fréttablaðinu?

,,Nei ég held að það séu ekkert sérstök viðbrögð. Fréttablaðið mun halda áfram að vera í sínu sæti sem langöflugasti fjölmiðill landsins.“

- Menn hafa velt því fyrir sér hvort pólarnir verða meira áberandi. Nú er umdeildur stjórnmálamaður ráðinn þarna inn og velta því fyrir sér hvort Fréttablaðið gerir slíkt hið sama og hefur nafn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur verið nefnt í því sambandi?

,,Það er ekkert hæft í þeim vangaveltum. Fréttablaðið er miðill sem er að segja fréttir, ekki að búa þær til. Maður óttast að Morgunblaðið þurfi að glíma við að það verði talið vera málpípa Davíðs og hans skoðanna hér eftir. Það vita allir að hann er mjög fastur á sínu og það mun engin ráða neinu annar á Morgunblaðinu hér eftir.“

Ekki trúverðugur varðandi málefni Jóns Ásgeirs

- Nú segir í tilkynningu að hann muni ekki koma að málefnum er tengist hruninu?

,,Það er ekki trúverðugt – ritstjóri er bara ritstjóri. Hann er skipstjórinn í brúnni. Það er bara þannig. Þarna láta þeir fínan fagmann fara, mann sem var óumdeildur fagmaður og það fyrir þetta. Þetta er stórundarlegt.

Það er ljóst að blaðið verður ekki trúverðugt þegar það fjallar um málefni er tengjast mér eða mönnum í kringum mig. Það mun enginn taka þetta blað trúlega. Hann er allt of umdeildur maður til að taka þetta starf. Það er bara þannig.

Þetta er bara þannig að Óskar Magnússon hefur tapað fyrri eigendum sínum. Hann verður ekki lengur maðurinn með síðasta orðið.“