Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs, og Ingibjörg S. Pálmadóttir tengjast fjölda mála sem tekin verða fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni.

Ingibjörg Pálmadóttir
Ingibjörg Pálmadóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Eftir hádegi í dag verður tekið fyrir riftunarmál þrotabús Baugs gegn Fjárfestingafélaginu Gaumi, Eignarhaldsfélaginu ISP sem skráð er á Ingibjörgu, Gaum og Banque Havilland í Lúxemborg.

Þá verður í dóminum í fyrramálið fyrirtaka í máli Glitnis gegn 101 Capital, en Ingibjörg er stjórnarmaður í félaginu og fyrirtaka í meiðyrðamáli Jóns Ásgeirs gegn Birni Bjarnasyni, fyrrverandi dóms- og menntamálaráðherra sem skrifaði nýverið bókina Rosabaugur yfir Íslandi.

Ekki verður slöku slegið við þrátt fyrir annasaman morgun því eftir hádegið verður svo fyrirtaka í skaðabótamáli þrotabús Baugs gegn Jóni Ásgeiri.

Mál Ingibjargar verður enn á dagskrá á fimmtudag en þá sækir eignarhaldsfélag hennar mál gegn slitastjórn Kaupþings.

Eftir hádegið er svo fyrirtaka í enn einu riftunarmáli Baugs Group. Það tengist ekki alveg Jóni Ásgeiri nema óbeint en stefndi er Skarphéðinn Berg Steinarsson, nú forstjóra Iceland Express.

Jón Ásgeir er aftur í sviðsljósinu í héraðsdómi snemma á föstudagsmorgun en þá verður fyrirtaka í skaðabótamáli skilanefndar og slitastjórnar Glitnis gegn honum, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Magnúsi Arnari Arngrímssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis og Rósant Má Torfasyni, fyrrverandi fjármálastjóra Glitnis.

Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson við skattadóm í október 2011
Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson við skattadóm í október 2011
© Aðsend mynd (AÐSEND)