Jón Ásgeir Jóhannesson og eiginkona hans Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir hafa gert með sér kaupmála.

Þetta kemur fram í auglýsingu sem birt var í Lögbirtingarblaðinu í liðinni viku en kaupmálanum var skilað til sýslumannsins í Reykjavík hinn 3. júní sl. Í slíkum auglýsingum kemur ekkert fram um innihald kaupmálans.

Jón Ásgeir var stjórnarformaður og stærsti eigandi Baugs áður en Baugur var úrskurðaður gjaldþrota. Hann er nú helsti eigandi Gaums, sem m.a. keypti Haga út úr Baugi. Hagar voru reknir með 1,4 milljarða króna tapi á fyrri hluta síðasta rekstrarárs, þ.e. á tímabilinu 1.3.-31.8. 2008.

Samkvæmt því uppgjöri voru skuldir Haga um 22 milljarðar og eigið fé tæpir 7 milljarðar. Stór hluti skuldanna er á gjalddaga nú í haust. Um mitt þetta ár stóð til að birta ársuppgjör Haga fyrir síðasta reikningsár, en því var frestað um óákveðinn tíma.

Nokkuð hefur borið á því eftir hrun bankanna sl. haust að áhrifamenn í viðskiptalífinu hafi gert kaupmála. Með kaupmála geta hjón ákveðið að tiltekin verðmæti skuli verða séreign annars þeirra.