Hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir hafa sett lúxusíbúð sína í fjölbýlishúsinu 50 Gramercy Park North á Manhattan í New York í sölu. Verðmiðinn er 10,9 milljónir dala, jafnvirði tæpra 1,3 milljarða íslenskra króna. Íbúðin er ekkert slor. Hún er á 16. hæð í fjölbýlishúsinu, tæpir 280 fermetrar að stærð, með þremur svefnherbergjum og þremur og hálfu baðherbergi. Miðað við þetta er fermetraverðið 4,6 milljónir króna. Nágrannarnir hafa ekki verið af verri endanum í gegnum tíðina. tískufrömuðurinn Karl Lagerfeld keypti íbúð í sama húsi árið 2006 og seldi hana í janúar á þessu ári.

Keyptu þrjár risaíbúðir í lúxusblokk

Jón Ásgeir og Ingibjörg áttu um tíma þrjár íbúðir í fjölbýlishúsinu. Þau keyptu fyrst íbúð þar undir lok árs 2006 en bættu við sig tveimur öðrum fáeinum mánuðum síðar. Þar á meðal var þakíbúð í fjölbýlishúsinu. Tvær íbúðir sameinuðu þau í eina og bjuggu þannig til rúmlega 750 fermetra íbúð með 200 fermetra svölum sem snúa út að Gramercy-garði.

Ágætlega er hugsað um þá sem búa í húsinu. Segja má að það sé blanda af íbúð og hóteli en íbúar hússins geta pantað sér ýmsa þjónustu, svo sem veitingar, nudd, þrif, sett þvott í hreinsun og kampavín þegar þeim hentar. Þá er garðurinn í einkaeign.

Bandaríski netmiðillinn The Real Deal rifjar upp að árið 2011 hafi Jón Ásgeir og Ingibjörg selt stærri íbúðina á 22 milljónir dala, jafnvirði 2,6 milljarða íslenskra króna. Raunin er hins vegar sú að félagið Mynni ehf, dótturfélag slitastjórnar gamla Landsbankans, tók eignina yfir. Íbúðin hefur nú verið í söluferli um alllangan tíma, samkvæmt upplýsingum frá slitastjórninni. The Real Deal segir verðið 14,9 milljónir dala, jafnvirði tæpra 1,8 milljarða íslenskra króna.

Verðið hefur eitthvað verið að lækka á íbúðum í 50 Gramercy Park North í gegnum tíðina, samkvæmt upplýsingum The Real Deal. Netmiðillinn bendir á að þegar Lagerfeld keypti íbúðina sína sem áður var nefnd hafi hann greitt 6,5 milljónir dala fyrir hana. Þegar hann seldi hana í byrjun árs hafi hann fengið 4,5 milljónir dala fyrir hana.