Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Baugsfjölskyldan líti svo á að hún hafi gert Arion betra tilboð í Haga en fáist fyrir félagið með skráningu á markað. Því hafi bankinn í raun hafnað auknum endurheimtum með því að taka ekki tilboði þeirra. Það hefur þó aldrei verið gert opinbert hvernig það tilboð var upp byggt. Því munu fyrrum eigendur 1998 taka til varna ef Arion reynir að ganga á eignir þeirra til að fá það sem vantar upp í skuld sína.

Gaumur, ISP og Bague eru í ábyrgðum fyrir þeirri upphæð sem eftir stendur af láni til 1998 ehf. eftir að Hagar verða settir á markað.

Gaumur (í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu), ISP (í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs) og Bague S.A. (í þriðjungseigu Hreins Loftssonar) voru eigendur 1998 ehf. þegar félagið keypti Haga út úr Baugi sumarið 2008 fyrir rúma 46 milljarða króna á núvirði. Félögin eru í ábyrgðum fyrir þeirri upphæð sem eftir stendur af láni til 1998 ehf eftir að hagar verða settir á markað.

Kaupþing lánaði þeim fyrir kaupunum og tók sem veð 95,7 prósentna hlut í Högum og rúmlega þriðjungshlut í Baugi Group. Félögin þrjú gengust auk þess í svokallaða pro rata-ábyrgð á skuldum 1998, en það þýðir að ef önnur veð duga ekki fyrir greiðslu skuldarinnar er hægt að ganga á eigendurna eftir hlutfallslegri eign þeirra. Gaumur átti 82,3 prósent í 1998 ehf. , ISP átti 8,9 prósent og Bague S.A. átti 8,8 prósent.

Erfitt er að átta sig á hvaða eignir eru inni í Gaumi, ISP og Bague S.A. Þau tvö fyrrnefndu hafa ekki skilað ársreikningum fyrir árin 2008 og 2009 og Bague S.A. er skráð í Lúxemborg. Samkvæmt ársreikningi ársins 2007 námu eignir Gaums um 60 milljörðum króna en þorri þess fjár var bundinn í hlutabréfum í Baugi, sem er nú gjaldþrota, og skráðum verðlausum félögum. ISP er sagt eiga eignir upp á tæpa 6,7 milljarða króna í sínum ársreikningi 2007 en félagið skuldaði líka 6,2 milljarða króna. Þorri eignanna var bundinn í Baugi eða skráðum bréfum í skráðum hlutafélögum sem nú eru gjaldþrota eða hafa farið í gegnum nauðasamninga. Helsta eign félagsins virðist vera 101 Hótel í miðborg Reykjavíkur.