Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs Group og FL Group undir það síðasta, var skuggastjórnandi í Glitni áður en bankinn fór í þrot. FL Group var stærsti eigandi bankans á sama tíma.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri á DV, skrifar í leiðara blaðsins í dag um skilgreiningu á hugtakinu skuggastjórnandi og ákæru sérstaks saksóknara á hendur fjórum mönnum í tengslum við Aurum-málið svokalla. Hann bendir á að Jón Ásgeir hafi verið ákærður þrátt fyrir að hafa ekki gegnt formlegri stöðu innan bankans.

Í Aurum-málinu er Jón Ásgeir ákærður ásamt Lárusi Welding, bankastjóra Glitnis þegar FL Group var stærsti hluthafi bankans, ásamt þeim Magnúsi Arnar Arngrímssyni og Bjarna Jóhannessyni, sem unnu hjá Glitni á sama tíma. Þá snýr ákæran að sex milljarða króna lánveitingu Glitnis til skúffufélagsins FS38 í júlí árið 2008 sem notað var til að kaupa bresku skartgripakeðjuna Aurum af Fons, félagi Pálma Haraldssonar. Kaupverðið var langt yfir matsverði.

Ingi Freyr segir nafn Jóns Ásgeirs hafa oft borið á góma í tengslum við umræðuna um skuggastjórnendur og rifjar hann upp tölvupósta sem Jón Ásgeir sendi bankastjóranum Lárusi þar sem honum er skipað fyrir verkum.

Hann birtir beina tilvitnun í einn slíka póst í leiðaranum.

„Þetta eru málin nenni ekki að bögga ykkur á hverjum degi með þessu enda ætlast ég til að CEO þessara félaga vinni sín mál ef við komum þessum málum frá er borðið mitt hreint. Annars er kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður GLB (Glitnis).“

Ingi Freyr rifjar jafnframt upp að Lárus hafi kvartað yfir því í tölvupósti til Jóns Ásgeirs að hann kæmi fram við sig eins „útibússtjóra“ en ekki „forstjóra“. Með öðrum orðum: Heimildir eru fyrir því að Jón Ásgeir hafi stýrt Glitni í gegnum Lárus í einhverjum tilfellum.