Jón Ásgeir segir pósta Einars Arnar setta fram í hálfkæringi

Jón Ásgeir Jóhannesson segir  tölvupósta frá Einar Erni Ólafssyni, þáverandi starsmanns Glitnis, vegna lánveitinga til dótturfélags Fons sumarið 2008 hafa verið setta fram í hálfkæringi. Þetta kemur fram í greinargerð Jóns Ásgeirs vegna Aurum-málsins svokallaða. Ítarlega er greint frá greinargerðinni í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.

Einar Örn var einn þeirra sem sá pósta Jóns Ásgeirs til Lárusar Welding, þáverandi forstjóra Glitnis, þar sem Jón Ásgeir lagði til hvað Glitnir ætti að gera í tengslum við ákveðin viðskipti. Hann fékk einnig afrit af póstum þar sem lánveitingar til FS38 ehf. voru ræddar. Þær lánveitingar eru grundvöllur stefnu slitastjórnar Glitnis á hendur Jóni Ásgeiri, Lárusi, Pálma Haraldssyni og þremur fyrrum starfsmönnum Glitnis vegna 6 milljarða króna lánveitingar til FS38, dótturfélags Fons. Lánið var síðan notað til að kaupa tæplega 30% hlut Fons í Aurum.

Slitastjórnin vill meina að kaupverðið hafi verið margfalt hærra en raunvirði hlutarins og að lánveiting Glitnis hafi meðal annars verið framkvæmd til þess að losa um 2 milljarða króna í reiðufé fyrir Pálma og Jón Ásgeir. Slitastjórnin krefur sexmenninganna um greiðslu á milljörðunum sex auk vaxta frá miðju ári 2008.

Kannski best að Jón Ásgeir verði starfandi stjórnarformaður Glitnis

Á meðal þeirra pósta sem Jón Ásgeir sendi Lárusi var þessi: „Þetta eru málin nenni ekki að bögga ykkur á hverjum degi með þessu enda ætlast ég til að CEO þessara félaga vinni sín mál ef við komum þessum málum frá þá er borðið mitt hreint. Annars er kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður GLB.“

Í svarpósti Einars til Lárusar vegna hans segir meðal annars að „mér finnst hinn góði eigandi okkar aðeins setja þig í erfiða stöðu með þessum mail. Goldsmith er t.d. virði 1,5 en ekki 4,0 o.s.frv. En ég geri allt sem þú segir mér að gera. kv. Einar“.

Í öðrum pósti segist Einar: „Verð að viðurkenna að ég skil ekki afhverju við lánum ekki bara Pálma 2 milljarða króna til að koma fyrir á Cayman, áður en hann fer á hausinn. Í stað þess að fara í alla þessa Goldsmith æfingu“.

Jón Ásgeir segist í greinargerð sinni ekki geta svarað fyrir þessa pósta Einars Arnar. Hann geti ekki betur séð en „að þeir séu settir fram í hálfkæringi og að lítt athuguðu máli. Á þeim ummælum verður ekki byggt í málinu“.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .