Jón Ásgeir Jóhannesson segir að svo virðist sem slitastjórn Glitnis hafi samið við Alexander K. Guðmundsson, fyrrum fjármálastjóra Glitnis, um að bera vitni gegn sér og öðrum sakborningum í málshöfðunum slitastjórnarinnar undir hótunum um að höfðað yrði mál gegn honum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð sem Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, skilaði héraðsdóms vegna Aurum- málsins svokallaða í lok september síðastliðins.

Slitastjórn Glitnis stefndi Jóni Ásgeiri, Pálma Haraldssyni, Lárusi Welding og þremur fyrrum starfsmönnum Glitnis í apríl síðastliðnum vegna lánveitinga Glitnis til FS38 ehf.,dótturfélags Fons, upp á 6 milljarða króna í júlí 2008. Lánið var síðan notað til að kaupa tæplega 30% hlut Fons í Aurum.

Slitastjórnin vill meina að kaupverðið hafi verið margfalt hærra en raunvirði hlutarins og krefur sexmenninganna um greiðslu á milljörðunum sex auk vaxta frá miðju ári 2008. Alexander hefur einnig samþykkt að bera vitni í dómsmáli slitastjórnarinnar gegn Jóni Ásgeiri, sex öðrum einstaklingum og PricewaterhouseCoopers sem rekið er í New York. Þar krefst slitastjórnin 250 milljarða króna skaðabóta frá sakborningum fyrir að hafa rænt Glitni innan frá.

Fékk háar starfslokagreiðslur skömmu fyrir þrot bankans

Alexander samdi fyrr á þessu ári við slitastjórn Glitnis um að hún höfðaði ekki mál á hendur sér. Í staðinn samþykkti hann að aðstoða slitastjórnina og bera vitni gegn þeim aðilum sem hún hefur stefnt.

Í greinargerð lögmanns Jóns Ásgeirs segir að sá samningur hafi verið gerður við Alexander „þrátt fyrir að Alexander hafi þegið háar starfslokagreiðslur rétt fyrir greiðsluþrot bankans. Tekið skal fram að umbjóðandi minn þekki Alexander ekki persónulega og hefur aldrei átt samskipti við hann svo hann viti. Svo virðist sem stefnandi hafi samið við Alexander undir hótunum um að höfðað yrði mál gegn honum. Stefndi mun byggja á því að framburður einstaklinga sem svo er komið fyrir sé að engu hafandi fyrir dómstóli hér á landi.“

Samdi sig frá skaðabótum, riftunarráðstöfunum og öðrum einkaréttarlegum kröfum

Alexander gerði samkomulag við slitastjórn Glitnis um fullt samstarf er varðar „upplyìsingagjöf varðandi málefni Glitnis banka á starfstíma Alexanders hjá bankanum sem varði frá byrjun júní 2007 og til maí byrjunar 2008“.

Í staðinn féllst slitastjórnin á að „hún muni ekki standa að eða höfða einkamál á hendur Alexander af hálfu Glitnis banka hf., hvorki til heimtu skaðabóta, riftunarráðstafana né annarra einkaréttarlegra krafna eða úrræða“. Þetta kemur fram í yfirlyìsingu sem Alexander og Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, undirrituðu 9. apríl síðastliðinn.

Fær ekkert endurgjald

Alexander skuldbatt sig til þess að gefa slitastjórninni upplyìsingar um allt sem snerti hans starfssvið innan bankans, að afhenda henni öll gögn sem hann hefur undir höndum, að aðstoða hana við að meta og greina gögn, gefa raunsanna skyìrslu í vitnastúku fyrir dómstólum og „veita annars konar aðstoð sem slitastjórn og ráðgjafar hennar leita eftir“.

Í yfirlýsingunni kemur fram að „ekkert endurgjald verði innt af hendi af hálfu bankans til Alexanders vegna samstarfs hans“. Alexander hefur gegnt starfi forstjóra Geysis Green Energy (GGE) frá því í desember. Hann hafði áður verið fjármálastjóri þessa félags. Íslandsbanki, sem er að mestu í eigu skilanefndar Glitnis, á handveð í öllum eignum GGE og hefur tekið félagið yfir.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .