„Þetta var hugmynd sem kviknaði en hún fór út af borðinu hjá mér vegna þess að hún samræmdist ekki þeirri vinnu sem ég var að gera fyrir Iceland,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson í tölvubréfi til Viðskiptablaðsins í gær aðspurður um áætlanir hans um að opna lágvöruverslanir í London undir nafninu Best Price snemma á þessu ári.

Jón Ásgeir vill ekki viðurkenna að hann hafi sagt fjölmiðlum ósatt eftir að Viðskiptablaðið sagði frá þessum fyrirætlunum hans 18. mars 2010. Engar verslanir hafi verið opnaðar né verði opnaðar.

Í frétt Viðskiptablaðsins kom fram að til stæði að opna Best Price verslanir í London og verið væri að leita að hentugu húsnæði. Farið var yfir skráningu félagsins, sem fyrst hét Bonus Foods í júní 2009.

Þá kom fram að á bak við þessa vinnu stæði félagið JMS Partners Limited, sem Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, og Donald McCarthy, stjórnarformaður House of Fraser, stóðu á bak við ásamt Jóni Ásgeiri.

Jón Ásgeir var mjög ósáttur við þennan fréttaflutning Viðskiptablaðsins. Í viðtali við Bylgjuna og vísi.is sagði hann að engin plön um opnum verslana væru á hans borði. Í sömu viku vildi hann ekkert tjá sig við Viðskiptablaðið og sagði að þessi fréttaflutningur hefði skaðað sig.

Ósamrýmanlegur málflutningur Í eiðsvörnum vitnisburði Jóns Ásgeirs, sem nú er hluti af dómsskjölum í málaferlum slitastjórnar Glitnis við hann í New York, kemur fram að vinna við að stofna lágvöruverslanir í London hafi verið í gangi hjá JMS Partners. Þessi vitnisburður er dagsettur 15. júní í sumar.

Þau orð eru algjörlega á skjön við það sem Jón Ásgeir sagði við Bylgjuna og Vísi sama dag og frétt Viðskiptablaðsins birtist og í samtölum við blaðamann Viðskiptablaðsins í kjölfarið.