„Ég var aldrei í ábyrgð fyrir FL Group hf. eða Hannes Smárason vegna viðskipta með Sterling,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson í bréfi til mbl.is vegna frétta af ákæru á hendur Hannesi Smárasyni. Í ákærunni segir aftur á móti að Kaupþing í Lúxemborg hafi veitt Fons lán til að greiða FL Group til baka og að Hannes og Jón Ásgeir hefðu gengist í persónulegar ábyrgðir fyrir endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar.

Í ákærunni í málinu gegn Hannesi Smárasyni segir m.a. „Það var ekki fyrr en eftir þrýsting, meðal annars frá þáverandi forstjóra félagsins, að fjármunirnir skiluðu sér aftur á reikning FL Group í Kaupþingi banka hf. 30. júní 2005, eða rúmum tveimur mánuðum eftir brot ákærða samkvæmt ákæru. Fyrir þann tíma hafði millifærslan ekki verið færð í bókhald félagsins. Þann dag hafði KBL [Kaupþing banki í Lúxemborg] veitt Fons lán til að greiða umrædda fjármuni til baka til FL Group og gengust ákærði og Jón Ásgeir Jóhannesson í persónulegar ábyrgðir fyrir endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar.