Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs, hefur selt lúxusraðhús sitt við Galionsvej við Holmen en þaðan er meðal annars útsýni yfir dönsku óperuna og Amalienborgarhöll. Jón Ásgeir keypti húsið fyrir 11 milljónir danskra króna árið 2005.

Í frétt á vef Berlinske Tidene kemur fram að ásett verð á húsið var 15 milljónir danskra króna eða 375 milljónir króna en það hefur verið í sölu frá því í febrúar síðastliðnum. Eftir því sem blaðið upplýsir var húsið selt fyrir viku. Ekki er vitað hvort Jón Ásgeir heldur andvirði sölunnar en Baugur var eigandi að húsinu þar til í október á síðasta ári.

Húsið á Galionsvej er 363 fermetrar að stærð og er að grunni til gamalt pakkhús frá 1777 en hefur verið gert upp á mjög glæsilegan hátt.