*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 23. janúar 2021 11:05

Jón Ásgeir svarar fyrir

Í væntanlegri bók segir Jón Ásgeir að sérstakur saksóknari hafa sýnt af sér „dæmigerðan drullusokkshátt" í Aurum-málinu.

Trausti Hafliðason
Jón Ásgeir Jóhannesson,
Eyþór Árnason

Bókin Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar kemur út í lok næstu viku. Segja má að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi staðið dómsmálum frá árinu 2002 til loka ársins 2018 en þá var hann sýknaður í Aurum-málinu svokallaða. Við það tilefni sagði Jón Ásgeir við Einar Kárason, sem skrifar bókina, að "Í fyrsta skipti í 5.992 daga er ég ekki undir grun, undir ákæru eða í dómsmáli hjá íslenskum yfirvöldum.“ Bókin dregur nafn sitt af þessu skeiði í lífi Jóns Ásgeirs.

Í bókinni er áhersla á umfjöllun um dómsmálin, en einnig er  fjallað um margt annað, eins og uppvaxtarárin, stofnun Bónuss, fyrirtækjarekstur á erlendri grundu, pólitík og svo mætti lengi telja. Í Viðskiptablaðinu, sem kom út á fimmtudaginn, eru birt kaflabrot úr bókinni, þar sem meðal annars er fjallað um Aurum-málið (millifyrirsagnir eru blaðsins):

Aurum-málið

„Jón Ásgeir segir: „Það mál gekk út á að Pálmi Haraldsson hefði látið mig plata Glitni til að kaupa af honum verðlausa eign í alþjóðlega skartgripafyrirtækinu Aurum svo að hann fengi þar peninga sem hann gæti notað til að borga mér. Þetta mál hófst 2010 og þá var aftur farið að hlera síma og svo komið heim og gramsað í öllum skúffum, allt til að valda sem mestum skaða.“

Málið gekk semsé út á að bankinn Glitnir hafi lánað nokkra milljarða gegn veði í hlutabréfum í Aurum; lánið hafi verið veitt fyrir atbeina Jóns Ásgeirs, og samkvæmt ákærunni á honum að hafa verið kunnugt um að þessi hlutabréf væru lítils eða einskis virði.

Sem er að því leyti merkilegt að fyrirtæki þetta er í fullum rekstri nú rúmum áratug eftir hrunið og mikils virði á mörkuðum. [...]

Með allt niðrum sig

Gestur Jónsson sagði um Aurum ákæruna: „Það er alveg ótrúlegt hvernig það mál þróaðist. Það var sýknað í því í undirrétti. Eftir þá sýknu er viðtal í fjölmiðli við Ólaf Þór Hauksson sérstakan saksóknara sem segir að það sé ekkert skrýtið að það hafi farið eins og það fór í undirrétti því að meðdómandi í málinu hafi verið bróðir Ólafs Ólafssonar í Samskip. Sá var Sverrir Ólafsson, eðlisfræðingur og vísindamaður, búsettur í Englandi; Ólafur bróðir hans hafði ekkert með Aurum-málið að gera. Einhver blaðamaður hafði þá samband við Sverri og ber undir hann orð Ólafs Þórs saksóknara. Sverrir verður reiður þegar hann heyrir hvað Ólafur hefði sagt og lét flakka óheppileg orð, um að saksóknarinn væri með allt niðrum sig í þessu máli.

Þau orð hans voru svo notuð til þess að fá Hæstarétt til að ómerkja dóm undirréttar! Dómarinn sem þann dóm hafði kveðið upp upplýsti þá að hann hefði hringt fyrirfram í Ólaf Þór saksóknara og látið hann vita af bróðurtengslum Sverris við Ólaf Ólafsson. Ólafur Þór hafi ekki séð neina meinbugi á því. En saksóknarinn neitaði svo þegar á reyndi að hafa vitað um þennan skyldleika. Eftir á að hyggja hefði dómarinn ekki átt að láta nægja að hringja í saksóknarann heldur að kalla okkur alla fyrir, gera grein fyrir því hverjir myndu dæma, og bjóða málsaðilum að gera athugasaemdir.“

Umræddur Sverrir Ólafsson átti eftir að skrifa grein sem birtist í Fréttablaðinu 30. apríl 2015. Sverrir rekur aðkomu sína að málinu í greininni og segir að við upphaf þess hafi hann rætt hæfi sitt við dómsformann málsins í ljósi þess að hann væri bróðir Ólafs Ólafssonar, sem var ákærður í Al-Thani málinu. Dómsformaðurinn hafi ekki séð meinbug á þessum tengslum. Svo segir hann í greininni:

„Eftir að dómur féll í Aurum-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. júní 2014 fór sérstakur saksóknari í fjölmiðla og sagðist ekkert hafa vitað af tengslum mínum við Ólaf Ólafsson. Hann hafði því rekið Aurum-málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, setið fyrir framan mig, sem settan sérfróðan meðdómsmann, í marga daga og ekki haft nokkra hugmynd um það hver ég var. Hann hafði sem sagt ekki hirt um að kynna sér hver settur meðdómsmaður var í jafn umfangsmiklu máli. Mér er sagt að þegar sérfróður meðdómsmaður er skipaður þá sé það fyrsta verk allra málsaðila að afla sér upplýsinga um meðdómsmanninn, með hugsanlegt vanhæfi í huga.

Drullusokksháttur

Samkvæmt mínum upplýsingum er sannleikurinn í þessu máli hins vegar allt annar. Þegar rekstur Aurum-málsins var að hefjast fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, spurði ég dómsformanninn hvort sérstökum saksóknara væri ekki ljóst um fjölskyldutengsl mín. Sagði hann svo vera og bætti við að þeir hefðu rætt bróðurtengsl okkar Ólafs svo og ráðgjafastörf mín fyrir slitastjórn Glitnis, áður en rekstur málsins hófst. Hefði niðurstaðan af samtalinu verið sú að þeir urðu sammála um að engin ástæða væri til að gera athugasemdir við hæfi mitt til að sitja í dómnum. Og sú varð reyndin,“ skrifar Sverrir Ólafsson.

Gestur Jónsson: „Svo var settur nýr dómari í málið í undirrétti, Símon Sigvaldason sem stundum er kallaður Símon grimmi því hann sýknar næstum aldrei. En hann gerði það nú samt í þetta sinn, Jón Ásgeir var sýknaður.“

Jón Ásgeir: „Ég er alveg sannfærður um að Ólafur Þór Hauksson var alltaf með plan b í Aurum málinu; hann vissi auðvitað allan tímann að meðdómandi var bróðir Ólafs Ólafssonar en ætlaði sér hinsvegar að tefla því fram ef hann tapaði málinu. Og þetta var dæmigerður drullusokksháttur af hans hálfu.“ [...]

Símtal við sérstakan saksóknara

Dómarinn var Guðjón Steinar Marteinsson, og bókarhöfundur bar þetta undir hann.

Guðjón Steinar sagði að þeir hafi átt um það samræður í síma áður en málið var tekið til dóms, hann og Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari, hver yrði meðdómari málinu og hvaða maður það væri. Og þessvegna hafi komið gersamlega flatt upp á sig hvernig saksóknarinn brást við eftir að dómurinn var kveðinn upp. Upp hafi þá verið komin staðan: Hvor er líklegri til að vera að ljúga til um þetta, dómarinn eða saksóknarinn? En Guðjón segir að þess utan sé auðvitað alveg fjarstæðukennt að halda því fram að embætti sérstaks saksóknara með allan sinn mannskap og gögn og leitarvélar hafi ekki vitað eða getað aflað sér upplýsinga um hver Sverrir Ólafsson væri.

Guðjón bætti því við að þegar málið svo loks kláraðist með dómi Landsréttar hafi upphaflegi dómurinn sem hann sjálfur og meðdómandinn kváðu upp reynst hárréttur; úrskurður Landsréttar hafi verið sá sami og með sama rökstuðningi og með tilvísun til sömu skjala. Algerlega fúndamental skjala sem augljóslega hafði vísvitandi verið haldið frá, og hefðu ekki komið fram ef Gestur Jónsson og þeir verjendurnir í málinu hefðu ekki einhvernveginn rambað á þau.

Guðjón sagði einnig, að væri skýringin sú á því að þessi skjöl voru ekki lögð fram í réttinum að starfsmenn og rannsakendur embættisins hafi ekki gert sér grein fyrir mikilvægi þeirra, þá væri það jafngildi yfirlýsingar um vanhæfi sömu manna til að fást við þannig rannsókn. Skýringar Gríms Grímssonar í því máli voru einfaldlega haugalygi, það var bara allt gert til að ná fram sakfellingu, enda voru menn hjá embættinu algerlega með Jón Ásgeir á perunni, og greinilega ófærir um að setja til hliðar sína persónulegu fordóma í þessum málarekstri.

Sagði Guðjón Steinar Marteinsson dómari.

Gestur Jónsson sagði að lokum um þetta mál: „Það er auðvitað alveg rosalegt áfall fyrir íslenskan lögmann, sem alltaf hafði verið stoltur af starfinu og kerfinu, að vera farinn að trúa því að ekki væri spilað eftir reglunum alls staðar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.