Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs Group, staðfestir í samtalvi við Vísi.is að félagið hafi selt 28% hlut sinn í Moss Bros til Phillip Green. Hann segir að hluturinn hafi farið á 40 prósenta yfirverði.

„Salan á bréfunum í Moss Bros kemur í kjölfar þess að við hættum við yfirtöku á félaginu," segir Jón Ásgeir í samtali við Vísi.

„Salan sýnir einnig að við þurfum ekki að vera selja eignir erlendis á brunaútsölu heldur er hægt að hámarka verðmæti eigna með skynsömum hætti," segir hann.

Það sem af er degi hafa bréf Moss Bros hækkað um 59%, samkvæmt upplýsingum frá Euroland.

Þar með er ekki öll sagan sögð. Bréfin hafa lækkað um 66% frá áramótum, samkvæmt upplýsingum frá Euroland.