Jón Ágeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, hlaut nýverið verðlaun Scanorama sem viðskiptamaður ársins 2005 á Norðurlöndum. Scanorama er tímarit gefið út af flugfélaginu SAS og er lesið af 1,7 milljónum flugfarþega í hverjum mánuði.

Í umsögn blaðsins um Jón Ásgeir segir að fyrirtæki hans Baugur selji matvæli, fatnað og leikföng á Bretlandsmarkaði. Þá hafi fyrirtækið hafið innreið sína í Danmörku með kaupum á helstu djásnum Kaupmannahafnar, Illum og Magasin du Nord. Einnig er sagt lauslega frá ákærum á hendur honum hérlendis og að hann hafi með naumindum komist frá málinu þar sem dómstólar hafi vísað máli ákæruvaldsins frá. Ekki er fjallað um stöðu málsins að öðru leyti.

Aðrir sem hlutu tilnefningu sem viðskiptamenn ársins voru Daninn Arne Frandsen sem nýlega var gerður framkvæmdarstjóri Incwala Resources námufyrirtækisins sem leggur áherslu á aukinn eignarhlut kvenna og svartra í námuiðnaði. Jafnframt var danska verktakafyrirtækið E. Pihl & Søn tilnefnt til verðlaunanna en fyrirtækið leggur áherslu á verkefni sem bæta hag almennings í vanþróaðri ríkjum heims.