Í vor skapaðist mikil umræða um styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka. Þar var meðal annars um að ræða fyrirtæki tengt Jóni Ásgeiri, FL Group, sem styrkti Sjálfstæðisflokkinn um 25 milljónir króna. Í kjölfarið skapaðist umræða um styrki til annarra flokka.

Samfylkingin upplýsti, eftir kosningarnar í vor, að nokkur fyrirtæki tengd Jóni Ásgeiri hefðu jafnframt styrkt flokkinn um tugi milljóna króna.

„Það má vel vera að ef menn taka allt saman þá finnist mönnum þetta vera miklar upphæðir,“ segir Jón Ásgeir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.   „En það má ekki gleyma því að við áttum í mörgum fyrirtækjum og ég vissi ekki endilega um alla þá styrki sem runnu til stjórnmálaflokka.“

Þá segir Jón Ásgeir að hann hafi ekki vitað um 25 milljóna króna styrkinn sem kom frá FL Group til Sjálfstæðisflokksins fyrr en eftir á. Aðspurður segir hann þá vera úr takt við það sem gengur og gerist.

Í viðtali við Viðskiptablaðið svarar Jón Ásgeir spurningum um hrun Baugs, hans eigið líf og fjárhag, tengsl og styrki til stjórnmálaflokka, tilgang þess að eiga fjölmiðla auk þess sem hann gagnrýnir umræðuna um bæði sig og hina svokölluðu útrásarvíkinga.

Þá tjáir Jón Ásgeir sig um þær rannsóknir sem nú standa yfir, fjárfestingar Baugs á Íslandi síðustu ár, mögulega eignasölu, stöðutöku gegn krónunni, aðdraganda bankahrunsins og eftirmála og margt fleira.

_____________________________

Áskrifendur nálgast blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .