Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, segist vonast til þess að taka þátt í nokkrum yfirtökum í Bretlandi á þessu ári í samtali við breska blaðið The Daily Mail.

Hann neitaði þó að tjá sig um hvort að Baugur muni auka við hlut sinn í bresku tískuvöruverslunarkeðjunni French Connection, sem hefur átt undir högg að sækja, en bætti við að hann telji vörumerkið áhugavert.

Jón Ásgeir sagði einnig að French Connection ætti ekki að vera skráð á hlutabréfamarkað og að félaginu væri betur borgið í einkaeigu.

Baugur á tæpan 14% hlut í French Connection og fjármálasérfræðingar búast við því að félagið geri tilraun til þess að kaupa félagið og afskrá, jafnvel í samvinnu við Stephen Marks, stærsta eiganda og stofnanda French Connection.