Jón Ásgeir Jóhannesson er yfirmaður þróunarverkefna í nýju skipuriti 365 miðla. Þetta er eitt sjö sviða sem nýverið var kynnt og heyra þau undir Ara Edwald, forstjóra 365 miðla.

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að hjá sviði Jóns sé verið að skoða ýmis ný viðskiptatækifæri. Jón Ásgeir, sem er fyrrverandi forstjóri Baugs Group, tengist ýmsum málum sem eru fyrir dómsstólum. Þar á meðal eru Aurum-málið svokalla þar sem Glitnir lánaði sex milljarða til félags sem keyptum breska félagið Aurum Holdings, móðurfélag breskra skartgripaverslana, auk nokkurra mála sem tengjast riftun á gjörningum tengdum efnahagshruninu. Áður en Jón tók við nýja sviðinu hjá 365 miðlum hafði hann sinnt ýmsum ráðgjafastörfum fyrir fyrirtækið.

Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, er stjórnarformaður 365 miðla. Félög hennar eiga 90% hlut af A-hlutabréfum fyrirtækisins og 100% af B-hlutabréfum.

Á meðal annarra sviða hjá 365 miðlum er rekstur og fjármála sem Stefán H. Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs Group, stýrir.